Íbúasamtök 3. hverfis
 

13. febrúar 2008

Í dag birtist í Morgunblaðinu grein með myndum af fyrirhugðum mislægum gatnamótum Kringumýrar- og Miklubrautar í ljósi upplýsinga um að nýjasti meirihlutinn í Reykjavík hefur sett þau ofarlega á dagskrá á nýjan leik. Ýtarlega er fjallað um þessa fyrirhugðu lausn í framkvæmdafréttum Vegagerðarinnar - 4. tbl. 2008. Fyrirhuguð lausn er engan veginn ásættanleg fyrir íbúa og sérstaklega að því sem snýr að opnum gjám frá gatnamótum niður að Stakkahlíð og á þriðja metra hækkun hins risavaxna opna hringtorgs á gatnamótunum. Nánar er sagt frá þessu undir Gatnamót Kringlumýrar- og Miklubrautar hér á vefnum.

22. nóvember 2007

Á Aðalfundi Íbúasamtaka 3. hverfis í kvöld lýsti Svandís Svavarsdóttir borgarfulltrúi yfir því að stokkar á Miklubraut séu forgangsmál hjá nýjum meirihluta í borginni og komi á undan mislægum gatnamótum og öðrum tengdum framkvæmdum sem hafa verið í farvatninu. Þessi framkvæmd er forgangsatriði því hún er íbúavæn framkvæmd og gerð til að bæta lífsgæði íbúa í hverfinu. Ekki sé endanlega ljóst hvort að mislægu gatnamótin verði blásin af, en vilji Svandísar stendur til þess ásamt fleirum í hinum nýja meirihluta. Það er því ljóst að það er bjartara framundan og vonandi komið að því að Hlíðarnar verði loksins sameinaðar í eitt heilstætt hverfi.

Að afloknum hefðbundnum aðalfundarstörfum, fór formaður Íbúasamtaka 3. hverfis í gegnum helstu mál sem brenna á íbúum og Svandís svaraði fjölmörgum spurningum fundargesta. Glærur af fundinum, skýrslu stjórnar og reikninga samtakanna má finna hér.

Frásögn Morgunblaðsins þann 23. nóvember er hér. - PDF skjal

20.07.2007

Fyrstu tillögur að nýjum mislægum gatnamótum á Kringlumýrarbraut og Miklubraut, ásamt tillögum að stokkalausnum hafa verið lögð fram í stofnunum og ráðum borgarkerfisins. Þessar tilllögur gera ráð fyrir mislægum gatnamótum sem ná í um 2,5 m hæð yfir núverandi plani, auk göngubrúa og annar mannvirkja. Gert er ráð fyrir að gatnamótin verði gerð í fyrsta áfanga og svo eru stokkalausnir á Miklubraut í öðrum og þriðja áfanga sem vinna á árunum 2011-2014.

Íbúasamtök 3. hverfis bíða nú þess að vera kölluð til samráðs um málið, eins og svo ítrekað og oft hefur verið boðað, en lítið bólað á. Stjórn samtakanna hefur fundað um tillögurnar og er nú að vinna að frekari gagnaöflun, en fljótt á litið er ljóst að margar og miklar athugasemdir verða gerðar við þær tillögur sem nú eru kynntar. Nægir þar að nefna hæð gatnamóta, hversu stuttir stokkar eru í þessum tillögum, röðun áfanga og svo mætti lengi telja. Jafnframt vantar algjörlega að skýra hvernig staðið verði að framkvæmdum og umferðarmálum á 5 ára framkvæmdatíma, auk þess sem ljóst er að ekki er nema brot af þeim fjármunum sem þarf í þetta verk á samgönguáætlun.

Glærur með þessum tillögum eru á vef Reykjavíkurborgar á þessari slóð.

- - -

Á fjölmennum borgarafundi í Háteigsskóla þann 5. mars 2007 komu fram sláandi upplýsingar um stöðu 3. hverfis af völdum mengunar. Í erindi Sigurðar Þórs Sigurðarsonar læknis kom fram að afleiðingar af völdum svifryks og köfnunarefnisdíoxíðs mengunar væru hættulegri en almennt hefði verið talið. Það er því skýlaus krafa íbúa að þegar verið hafist handa við að fara í aðgerðir til langframa, auk þess að taka undir þá sjálfsögðu viðleitni að íbúar taki líka sínar samgönguvenjur til rækilegrar endurskoðunar. Það má lesa erindin og annað af fundinum hér á vefnum.

Á fundinum lýsti Gísli Marteinn Baldursson nýjum aðgerðaráætlunum Umhverfissviðs borgarinnar og hvernig staða væri á hönnun á mislægum gatnamótum Miklubrautar og Kringlumýrarbrautar. Gísli benti líka á korti þær stokkalausnir sem er verið að hanna og hvernig stokkar myndu teygja sig allt suður að Bústaðavegi og norður að Háaleitisbraut á Kringlumýrarbraut og niður fyrir Reykjahlíð í vestur á Miklubraut. 

Í kjölfarið af fundinum tók Morgunblaðið viðtal við Gísla og forðsíða blaðsins daginn eftir gat ekki verið skýrari; Miklubrautin í stokk á kjörtímabilinu. Í kjölfar fundarinns funduðu íbúar með þingmönnum Reykjavikur og þar kom m.a. að skv. upplýsingum sem þeir höfðu frá Vegagerðinni væri eingöngu um að ræða mislæg gatnamót á áætlun og engar stokkalausnir uppi á borðum.

Við kynningu á fjárhagsáætlun Reykjavíkurborgar þann 20. mars 2007 sagði Björn Ingi Hrafnsson formaður Borgarráðs spurningu blaðamanns mbl.is um hvort þeir vilji Miklubrautina í stokk:

"Já, já, við höfum lýst því yfir og ætlum sem sagt að setja mislæg gatnamót niður í jörðina”

Það eru því margar spurningar sem enn brenna á íbúum og eftir stendur krafan um að þeir verði upplýstir, hafðir með í raunverulegu samráði og að yfirvöld tryggi íbúum hið fyrsta varanlegar lausnir á alvarlegu ástandi af völdum loft- og hljóðmengunar í hverfinu. Þær lausnir eru ekki raunverulegar án yfirbyggða stokka allt í gegnum hverfið eða hreinlega jarðgöngum undir það til að fleyta gegnumstreymi bifreiða fram hjá því.

- - -

Á haustmánuðum 2005 stóðu nokkrir íbúar í Hlíðahverfi fyrir undirskrifarsöfnun til að skora á borgaryfirvöld og þingmenn Reykjavíkur að standa fyrir því að sameina Hlíðarnar með því að beita sér fyrir því að Miklubraut verði lögð í yfirbyggðan stokk í gegnum allt hverfið. Alls skráðu 777 einstaklingar sig á áskorunina og voru yfir 75% þeirra úr póstnúmeri 105. Þetta verkefni hefur síðan orðið eitt af megin baráttumálum Íbúasamtaka 3. hverfis.

Á Aðalfundi Íbúasamtaka 3. hverfis í október 2006 sýndu fulltrúar frá Framkvæmdasviði Reykjavíkurborgar tillögur sem eru til skoðunar varðandi lagningu Miklubrautar í stokk að hluta og kom þar m.a. fram að verið væri að skoða að vinna samhliða undirbúning að stokkalausn og mislægum gatnamótum Kringlumýrarbrautar og Miklubrautar, en 9 af hverjum 10 íbúum hverfisins hafa lýst sig andstæða þeim gatnamótum.

Í janúar byrjun 2007 sendi stjórn Íbúasamtaka 3. hverfis bréf til allra þingmanna Reykjavíkur með áskorun íbúanna um lagningu Miklubrautar í yfirbyggðan stokk, allt í gegnum hverfið og hvöttu þá til að vinna að því að slíkt verkefni færi inn á nýja samgönguáætlun sem lögð verður fyrir Alþingi á vorþingi 2007. Stjórn Íbúasamtakanna hefur lagt á það áherslu að lagning Miklubrautar í yfirbyggðan stokk þurfi að vera allt í gegnum hverfið til að verkefnið gangi upp. Umferðarverkfræðingur hefur tekið undir þessa skoðun íbúa og með því að leggja Miklubrautina niður í stokk a.m.k. austur fyrir Kringlu og með lagningu Öskjuhlíðarganga þá gætu fyrirhuguð þriggja hæða mislæg gatnamót orðið óþörf.

Hlíðarnar þjást fyrir það að vera orðnar sundurskornar af nær ómanngengnum umferðarstórfljótum og það er sjálfsögð krafa íbúa í hverfinu að það verði gert mannvænt á ný og að lífsgæði íbúa verði sett framar en nú er. Eina leiðin til að mæta því er að setja Miklubrautina í yfirbyggðan stokk, allt í gegnum hverfið, ekki bara í litlum bútum eins og rætt hefur verið.