Íbúasamtök 3. hverfis
 

Þverholt / Einholt

Úrskurðarnefnd skipulags- og byggingarmála fellir úr gildi takmarkað byggingarleyfi við Einholt-Þverholt.

Á fundi úrskurðarnefndar skipulags og byggingarmála þann 5. febrúar var ákvörðun byggingarfulltrúa um takmarkað byggingarleyfi á Einholti-Þverholti felld úr gildi og því byggingarframkvæmdir stöðvaðar. Anna B. Saari og Sif Bjarnadóttir, íbúar í nágrenninu sem hafa barist gegn þessu skipulagi höfðu kært þessa veitingu byggingarleyfis til úrskurðarnefndarinnar,

Lesa má úrskurðinn hér í heild sinni.

19. janúar 2008

Borgin svíkur loforð við íbúa vegna úttekta á húsum sem áttu að fara fram áður en sprengingar hófust á reitnum!

24 stundir hafa greint frá því síðustu daga hvernig íbúar í nágrenni við Einholt/Þverholt reitinn eru í raun réttlausir gagnvart mögulegum skemmdum á húsum sínum því sprengingum á reitnum er haldið "innan marka". Þá verandi formaður skipulagsráðs hafði lofað íbúum á undirbúningsstigi málsins að borgin myndi standa fyrir úttekt á húsum í nágrenninu áður en sprengingar hefðust. Þetta hefur borgin svikið og nú segir fulltrúi Tryggingarmiðstöðvarinnar að verði skemmdir, og verktaki hafi haldið sig "innan marka" þá sitji íbúar uppi með skemmdirnar."Orsökin fyrir tjóninu er ekkert frekar sprengingin en lélegur byggingarmáti", segir talsmaður Tryggingamiðstöðvarinnar í viðtali við 24. stundir.

Fyrri grein 24. stunda 15. janúar 2008

Seinni grein 24. stunda 20. janúar 2008

 

21. nóvember 2007

Hið nýja deiliskipulag við Einholt / Þverholt hefur enn ekki verið auglýst í Stjórnartíðindum eins og lögboðið er að gera. Fyrr en það hefur verið gert, geta íbúar ekki kært deiliskipulagið til Úrskurðarnefndar skipulagsmála því það telst ekki hafa tekið gildi skv. skipulagslögum fyrr en slík auglýsing hefur verið birt. Framkvæmdir eru í fullum gangi, þrátt fyrir þessa stöðu og þá staðreynd að íbúum hefur verið meinað um lögboðinn rétt sinn til að leggja fram kæru um hið nýja skipulag.

13.07.2007

Skipulagsstofnun hefur gert athugasemdir í bréfi við málsmeðferð Skipulags- og byggingarsviðs Reykjavíkurborgar vegna Einholts – Þverholts reitsins. Athugasemdir þeirra lúta að vöntun á skýrslu og uppdráttum af skuggavarpi, vöntunar á kynningu á breytingum við auglýsta tillögu, vöntun á tilgreindum hámarksfjölda íbúða á hverri lóð og að þessi fjöldi samræmist aðalskipulagi, að svör við athugasemdum teljist ekki fullnægjandi og m.a. þurfi að gera grein fyrir áhrifum vegna sprenginga og aukinnar umferðar. Skipulagsstofnun bendir jafnframt á að ekki sé gert grein fyrir hljóðvist íbúða á svæðinu og heimilda til að beita frávikum II í reglugerð um hávaða, verði þörf á því.

20.04.2007

Að sögn starfsmanns hjá Skipulagssviði Reykjavíkurborgar hafa aldrei borist jafn margar athugasemdir við deiliskipulagi eins núna við deiliskipulag Einholt/Þverholt en skilafrestur athugasemda við auglýsta deiliskipulagstillögu rann út þann 10. apríl sl.

Eftirfarandi bréf var lagt inn hjá Skipulags- og byggingarsvið Rvkborgar þ. 10 .apríl 2007

Fyrir hönd íbúa í Meðalholti, Þverholti, Einholti, Stórholti og á Háteigsvegi leggjum við undirrituð AFTUR inn undirskriftir íbúa sem var safnað í lok árs 2005 til að mótmæli þáverandi deiliskipulagstillögu á reit 1.244.1/-3,   Einholt/Þverholt.
Við sem viljum að nöfn okkar verði áfram á listanum gerum okkur grein fyrir að komin er ný deiliskipulagstillaga en þær athugasemdir sem eru á með listunum gilda enn þótt ýmislegt hafi verið breytt frá fyrstu deiliskipulagstillögu.

Það náðist í 129 af 258 íbúum símleiðis eða um 50 %.
Af þeim sögðu 123 já eða um 96 %

Aðeins 5 af þeim 129 sem náðust í höfðu skipt um skoðun og sögðust sáttir við/vera sama um auglýsta deiliskipulagstillögu frá 5.febrúar 2007
Kom einnig í ljós að nokkrir sem vildu staðfesta undirskriftir sínar væru þegar búnir að selja fasteignir sínar vegna fyrirhugaðra framkvæmda á reitnum og töldu sig heppna að hafa geta gert það áður en til framkvæmda kæmi. Vildu þeir samt ítreka undirskrift sína sem ástæðu fyrir brottflutning úr hverfinu.
Mjög margir lýstu yfir áhyggjum sínum vegna fyrirhugaðra framkvæmda og vonleysi og vantrú á að borgaryfirvöld taki mið af athugasemdum og undirskriftalistum við endanlega samþykkt deiliskipulags.
Við teljum að vegið hefur verið að íbúalýðræði með þeim hætti sem samráðsferlið við íbúa hverfisins hefur verið háttað. Við teljum að ákvæði 3.2 í Skipulagsreglugerð hafi ekki verið fullnægt við framgang þessa máls. Skammur frestur og ónógar kynningar hafa gert það að verkum að íbúar hafa ekki geta kynnt sér til hlítar framgang málsins til dagsins í dag.

03.04.2007

Skilafrestur á athugasemdum við auglýst deiliskipulag rennur út þriðjudaginn 10. apríl. Íbúar í Holtum hafa sent þetta bréf í öll hús í hverfinu og hvetja alla íbúa sem sendu inn athugasemdir á fyrri stigum til að endurnýja þær með nýrri athugasemd. Senda má athugasemdir til:

Skipulagsfulltrúi Reykjavíkur (Ágústa Sveinbjörnsdóttir) merkt Einholt/Þverholt
Borgartúni 3, 105 Rvk. (sími 411 3000)
agusta.sveinbjornsdottir@reykjavik.is EÐA skipulag@reykjavik.is
eða hverfisarkitekt:
Jóhannes Kjarval   johannes.kjarval@reykjavik.is

- - -

Íbúa í Holtunum safna nú mótmælum við auglýst deiliskipulag og hafa sent dreifibréf í öll hús í hverfinu:

ÓGILD – ÓMERK
Ó NEI !!!

Raddir 258 íbúa í hverfinu hafa verið dæmdar út af borðinu af Skipulags-og Byggingarsviði Rvk.borgar skv. bréfi dagsettu 31.01.07.  78% nágranna við Einholt/Þverholt skrifuðu undir mótmæli við umfang nýrrar deiliskipulagstillögu í október 2005.
NÚ ÞARF AFTUR AÐ SAFNA UNDIRSKRIFTUM.
Frestur til að skila inn nýjum athugasemdum/mótmælum er 10. apríl. Nú vantar sjálfboðaliða til að safna undirskriftum á svæðinu í kringum Einholt/Þverholt. Margar hendur vinna létt verk.
Fáið ykkur góðan göngutúr í góðu hverfi og kynnist góðum grönnum !!!
Hafið samband við undirritaðar, því fyrr því betra því margir fara burt um páskana og við viljum helst ljúka söfnuninni fyrir 4. apríl.
VIÐ LÁTUM EKKI AFGREIÐA RADDIR ÍBÚA SVONA !!
Gefum ekki lýðræðið upp á bátinn.
Verndum hverfið okkar.
Anna B.Saari, Meðalholt 5,s:562 7627, absaari1@hotmail.com
Sif Bjarnadóttir, Meðalholt 13,s: 562 6807, 699 8680, sifbjarn@hotmail.com

- - -

23.03.2007

Árið 2006 unnu nemendur í Meistaranámi í verkefnastjórnun við Háskóla Íslands verkefni vegna deiliskipulagstillagna sem lagðar voru fyrir 2005 og þau miklu viðbrögð sem íbúar sýndum þeim tillögum. Skýrsluna má nálagast hér og er hún birt með leyfi nemendanna. Þess má geta að frestur til að skila inn athugasemdum hefur verið lengdur til 10. apríl

- - -

12.03.2007

Í kjölfar af kynningarfundinum með Skipulags og byggingarsviði hafa íbúar sent þetta bréf til borgaryfirvalda með óskum um skjót svör

- - -

Fyrir kosningar dreifðu Sjálfstæðismenn þessu bréfi í öll hús í Holtunum.

- - -

28.02.2007:
Skipulags- og byggingarsvið boðar íbúa til kynningarfundar um auglýsta tillögu í upplýsingaskála á fyrstu hæð í Borgartúni 3, miðvikudaginn 7. mars kl. 16:00. Sent hefur verið bréf til allra sem höfðu sent inn athugasemdir við fyrri auglýsingar og fundurinn verður auglýstur í fjölmiðlum dagana fyrir fundinn.

- - -

Þegar fyrstu tillögur við breytingum á deiliskipulagi Einholts/Þverholts reitsins voru lagðar fram árið 2005 mótmæltu íbúar harðlega og voru lagðir fram undirskriftalistar með nöfnum 78% íbúa. Í kjölfarið var skipulagið endurskoðað og hæð húsa færð úr 8 hæðum hæst niður í 6. Þegar þessari tillögu var vísað aftur til skipulagsráð í júní 2006, bjuggust íbúar við því að nýr meirihluti myndi endurskoða tillögurnar, efna til samráðs við íbúa og koma verulegu til móts við þeirra óskir. Ekkert af þessu hefur verið gert, því ný auglýstar tillögur er nær alveg eins og þær fyrri eins og sjá má þegar nýtingarhlutfall tillagnanna eru bornar saman:

Íbúar eru því farnir af stað í ný og munu endurnýja öll fyrri mótmæli sem hafa verið úrskurður ógild af skipulagsyfirvöldum á þeirri forsendu að um nýja auglýsingu sé að ræða, þó verið sé að auglýsa nær algjörlega sama hlutinn.

Íbúar í Holtunum hafa skrifað ráðum og nefndum borgarinnar bréf og sent dreifibréf í öll hús í hverfinu. Eftirfarandi skjöl hafa verið send út að undanförnu vegna þessa máls:

Bréf til íbúa í hverfinu - PDF skjal

Bréf til borgarfulltrúa og skipulagsyfirvalda - PDF skjal

Samanburður á tillögunum - PDF skjal

Anna Saari hefur ásamt öðrum farið fyrir íbúum í þessu máli.

- - -

6. febrúar 2007

Þann 5. febrúar 2007 auglýsir skipulagsfulltrúi í Reykjavík nýja tillögu að deiliskipulagi fyrir þennan reit. Nýja tillagan er hér og sú sem var frestað í vor er hér. Tillögurnar eru nánast eins, sama nýtingarhlutfall lóða, sama hæð húsa og ekkert samráð hefur verið haft við íbúa á þeim tíma sem hefur liðið frá því að Borgarstjórn ákvað að vísa málinu aftur til skipulagsráðs. Þar að auki eru allar athugasemdir við fyrri auglýsingu ógildar. Því þurfa íbúar að gera athugasemdir á ný. Spurningar vakna um lögmæti slíkrar meðferðar þegar svo litlar breytingar eru gerðar á milli tillagna.

Það er rétt að halda eftirfarandi bókunum til haga frá fundi Borgarráðs þann 1. júní 2006 (feitletranir ritstjóra):

20. Lagt fram að nýju bréf sviðsstjóra skipulags- og byggingarsviðs frá 17. f.m., sbr. samþykkt skipulagsráðs s.d., varðandi breytingu á deiliskipulagi reits 1.244.1 og 1.244.3, Einholt - Þverholt. R05120015
Samþykkt með 4 atkvæðum gegn 3.

Borgarráðsfulltrúar Sjálfstæðisflokks óska bókað:

Ljóst er að of lítið tillit hefur verið tekið til óska íbúa í þessu máli og samráð við þá á síðari stigum, eftir að eignir á reitnum skiptu um eiganda, verið lítið sem ekkert. Borgarfulltrúar Sjálfstæðisflokksins telja að auglýsa hefði átt umrædda deiliskipulagstillögu að nýju með áorðnum breytingum, hefja nýtt samráðsferli við íbúa og taka síðan tillit til athugasemda þeirra. Þessi vinnubrögð meirihluta borgarstjórnar eru óviðunandi enda er um að ræða mikla þéttingu byggðar á svæði, sem er nú með hinum þéttbýlustu í borginni. Þá er ljóst að mikil fjölgun íbúa á reitnum hefur í för með sér stóraukin bílastæðavandamál í hverfi, þar sem nú þegar ríkja vandræði vegna skorts á bílastæðum.

Borgarráðsfulltrúar Reykjavíkurlista óska bókað:

Lýst er furðu á viðsnúningi Sjálfstæðisflokksins við afgreiðslu þessa mikilvæga máls. Brýnt er að taka af skarið um að á reitnum byggist stúdentaíbúðir um leið og hafin er vinna við að þróa reitinn áfram í samræmi við bókun meirihluta skipulagsráðs og yfirlýsingu Byggingarfélags námsmanna, og er vísað til bókunar meirihlutans í því efni.

Borgarráðsfulltrúar Sjálfstæðisflokks óska bókað:

Ekki er um neinn viðsnúning að ræða af hálfu borgarfulltrúa Sjálfstæðisflokksins í þessu máli. Á síðasta fundi skipulagsráðs kaus formaður þess að afgreiða málið úr ráðinu þrátt fyrir ósk sjálfstæðismanna um frekari frestun málsins. Sjálfstæðismenn sátu hjá við afgreiðslu málsins í skipulagsráði en boðuðu að tekin yrði afstaða á vettvangi borgarráðs."

- - -

Eldri umfjöllun:

Unnið er að gerð nýs deiliskipulags á reit sem afmarkast af Háteigsvegi, Þverholti, Stórholti og Einholti. Í hagsmunaaðilakynningu kom fram að hæð húsa sem fyrirhugað er að reisa er allt að 7-8 hæðir og mótmæltu íbúar því harðlega.

Þann 20. júní 2006 samþykkti Borgarstjórn að vísa málinu aftur til skipulagsráðs.

Deiliskipulagið var samþykkt í Skipulagsráði þann 17. maí 2006 og sendu íbúar út þetta bréf til allra borgarfulltrúa í kjölfarið.

Umsögn skipulagsfulltrúa d. 16. maí 2006 - PDF skjal

Auglýst teikning með síðustu breytingum 4. apríl 2006 - PDF skjal

Nýjar tillögur voru auglýstar þann 16. janúar 2006 og hafa hæstu hús verið lækkuð í 6. hæðir. Íbúar hafa gert kröfur um umtalsvert minna nýtingarhlutfall en samkvæmt auglýstum tillögum er nýtingarhlutfall (nhlf.) reitsins með því hæsta sem þekkist á íbúðareitum í borginni eða 2,83 nhlf. Íbúar hafa gert samanburð á fyrstu tillögum úr hagsmunaaðilakynningu á þeim sem nú eru auglýstar og þar kemur fram að einungis er um lítilsháttar mun að ræða milli tillagna, en fyrstu tillögur voru með 2.92 nhlf. Jafnframt hafa íbúar í götum austan við Einholt krafist enn frekari lækkunar húsanna og að hæð húsa fari ekki yfir 3-4 hæðir á reitnum öllum.

Hægt er að fá nánari upplýsingar um auglýstar tillögur á vef Skipulags- og byggingarsviðs og hér er auglýsing sem birtist í Morgunblaðinu þann 16. janúar. Frestur til að koma með athugasemdir rennur út þann 1. mars 2006. Íbúar í nágrenninu hafa haldið úti blogg-vef vegna þessa máls og hefur Anna B. Saari staðið fyrir henni. Síðan er aðgengileg hér.

Athugasemdabréf Önnu B. Saari - PDF skjal

Dreifibréf íbúa - janúar 2006 - PDF skjal

Grein eftir Sif Bjarnadóttur í Morgunblaðinu - Dagur, Stefán og Steinunn krafin svara - PDF skjal

Frétt Morgunblaðsins af fundi á Kjarvalsstöðum 23. janúar 2006 - PDF skjal

Samanburður á nýtingarhlutfalli milli tillagana - PDF skjal

Fyrstu mótmæli íbúa - 23. júní 2005 - PDF skjal

Undirskriftarsöfnun - Október 2005 - PDF skjal

Grein úr Fréttablaðinu 02. janúar 2006 - viðtal við íbúa

Mynd: Tillögur úr hagsmunaðilakynningu.