Íbúasamtök 3. hverfis
 

Háteigsvegur

Sameiginlegt vandamál íbúa beggja megin Háteigsvegar er skortur á bílastæðum þar sem hvergi er gert ráð fyrir þeim inni á lóðum nema fyrir framan bílskúra. Að norðanverðu eru engir bílskúrar en þar þýðir ekki að sækja um leyfi til að gera bílastæði inni á lóðum þótt nægt pláss sé fyrir þau. Slík leyfi fást ekki og nokkur dæmi eru um að slík bílastæði hafi verið gerð í trássi við lög án þess að það hafi dregið dilk á eftir sér gagnvart íbúum.


Þessi þrengsli verða til þess að jafnan er lagt bílum beggja vegna götunnar og það verður til þess að strætisvagnar eiga erfitt með að aka eftir henni hindrunarlaust og ef strætisvagn mætir bíl á Háteigsvegi þarf annar að stoppa og jafnvel bakka.  Allmörg dæmi eru um að strætisvagnar hafi runnið utan í kyrrstæða bíla við götuna í hálku og valdið skemmdum á þeim.

Þess vegna vakti það nokkra gremju íbúa þegar ferðum strætisvagna um Háteigsveg var fjölgað á síðasta ári og nú aka tveir vagnar um veginn í stað eins áður. Vagn sem áður fór eftir Flókagötu gengur nú eftir Háteigsvegi. Þetta er sérlega undarlegt í ljósi þess að Flókagatan er mun breiðari en Háteigsvegur og þar eru alltaf tvær akreinar fríar og engin vandræði eða umferðarteppur af völdum strætisvagna. Þessum breytingum var mótmælt með formlegum hætti en engar úrbætur hafa enn verið gerðar.


Íbúar við Háteigsveg hafa ásamt íbúum í Meðalholti mótmælt fyrirhuguðum framkvæmdum á reitnum Þverholt - Einholt og sent inn athugasemdir til skipulagsyfirvalda við litlar undirtektir.
Sprengingar við framkvæmdirnar og hugsanlegar skemmdir á húsum í kjölfarið valda íbúum við Háteigsveg áhyggjum og ekki síður stóraukin umferð gegnum hverfið sem hlýtur að fylgja í kjölfar þess sem kallað er Hlemmur plús. Sú umferð sem verður talin í hundruðum bíla á dag hlýtur að miklu leyti að bætast á Háteigsveg og íbúum finnst enn að verulega skorti á skýr svör borgaryfirvalda við því hvernig brugðist verði við þeim vanda.


Uppbygging og endurbætur á Miklatúni sem alhliða útivistarsvæði eru einnig áhugamál íbúa við Háteigsveg enda mikið verk þar óunnið af hálfu yfirvalda. Öflugasti  hvatinn í þeim efnum sem öðrum er virk þátttaka íbúa og þrýstingur frá málefnalegum samtökum þeirra.

Páll Ásgeir Ásgeirsson - lysandiinternet.is