Íbúasamtök 3. hverfis
 

Hlíðarnar hafa Samgöngublómið 2008

Hlíðarnar eru samgönguhverfi Reykjavíkur árið 2007-2008. Íbúasamtök 3. hverfis hafa verið að vinna með Þjónustumiðstöð Miðborgar og Hlíða að málum tengdu þessu.

Í september 2007 var vinnustofa á Kjarvalsstöðum á vegum Þjónustumiðstöðvar Hlíða og úr því hugarflugi komu 29 góðar hugmyndir um að bæta samgöngur í hverfinu. Auk þeirra, þá hefur stjórn Íbúasamtakanna bætt við í sarpinn og kynnti alls 45 góðar hugmyndir um hvernig bæta megi samgöngur í Hlíðunum. Sumar þessara hugmynda er mjög einfaldar í framkvæmd og aðrar heldur flóknari. Þær eiga það þó allar sameiginlegt að þær endurspegla vilja íbúa til að gera gott hverfi enn betra.

Þessar hugmyndir voru lagðar fram á fyrsta fundi nýs hverfisráðs í byrjun janúar 2008 með vonum að þeim verði almennilega komið á flot í borgarkerfinu:

1 Gerð verði gangskör að því að ganga frá þeim göngustígum sem þegar eru í hverfinu og þeir tengdir saman þar sem á það skortir.

2 Bílastæðum íbúa við Miklubraut milli Lönguhlíðar og Stakkahlíðar verði breytt til þess að fjölga þeim og gera þau aðgengilegri.

3 Gangstéttir og göngustígar verði ruddir af snjó þegar það á við.

4 Fjölga þarf bekkjum við göngustíga í hverfinu, bæta lýsingu og fjölga ruslafötum til að bæta umgengni.

5 Gera samninga við íbúa, fyrirtæki og stofnanir í hverfinu um að nota reiðhjól frekar en bíla.

6 Fjarlægja þrepaskiptingu umferðarljósa yfir Miklubraut. Börn og margir fullorðnir átta sig ekki á hvernig þrepaskiptingin virkar og skapar það þeim mikinn háska.

7 Fjölga hjólastígum til að auðvelda fólki að nota reiðhjól sem samgöngutæki.

8 Miklabraut í stokk óslitið frá Kringlunni að Snorrabraut.

9 Laga þarf aðgengi t.d. með göngustígum að ýmsum útivistarsvæðum eins og Öskjuhlíð, Miklatúni og tönkunum við Háteigsveg og við Veðurstofuna.

10 Setja göngu/hjólastíginn sem liggur norður meðfram Bústaðavegi niður Öskjuhlíð í stokk undir Litluhlíð og tengja hann inn á Skógarhlíð

11 Skipulag sorplosunar verði þannig að ekki sé um sorplosun að ræða oftar en einu sinni í viku.

12 Fjölga götum með forgang fyrir strætó.

13 Engin bílastæði í Reykjavík verði ókeypis.

14 Fá foreldra til að ganga með börn sín í skólann í stað þess að aka þeim.

15 Fá stóra vinnustaði eins og skóla og borgar- og ríkisstofnanir til þess að umbuna þeim starfsmönnum, sem ekki koma akandi til vinnu.

16 Frítt í strætó fyrir alla.

17 Leggja gangstétt meðfram Kjarvalsstöðum við Flókagötu en hana vantar í dag.

18 Gera alla göngustíga þannig að þeir séu ætíð færir. Sumir verða drullusvað í miklum rigningum.

19 Fjölga hraðahindrunum af þeim gerðum sem ekki skemma bíla. T.d. í Bólstaðarhlíð.

20 Leggja tvær sporvagnabrautir sem hefðu forgang á aðra umferð. Aðra frá Kjalarnesi til Keflavíkur og hina frá Seltjarnarnesi til Hveragerðis.

21 Auka notkun á Miklatúni með betri tengingum við aðliggjandi byggð, útileiksvæði barna og með því að gera þar tjörn, enda draga tjarnir ætíð að sér fólk.

22 Endurnýja gömlu gönguleiðina frá Snorrabraut að Nauthólsvík.

23 Bæta hjóla- og gönguaðstöðu með því að breyta götum í “vistgötur” sbr. Þórsgötu.

24 Gera einn dag að umferðarlausum degi eða degi án einkabílsins.

25 Bílastæðin af götunum og inn á lóðir húsanna til að auðvelda gerð hjólabrauta.

26 Búa til “ramp” til að gera aðgengi fyrir hjólastóla, barnavagna og reiðhjól mögulegt niður í undirgöngin undir Miklubraut við Lönguhlíð.

27 Gera opin útileiksvæði barna meira aðlaðandi t.d. við Grænuhlíð.

28 Gera boðmerki við hjólabrautina við Lönguhlíð minni, þar sem stærð þeirra í dag skyggir á útsýnið fyrir lítil börn og getur því skapað hættu.

29 Fjölga hjólagrindum og skýlum fyrir hjól við grunn- og framhaldsskóla í hverfinu.

30 Hröðun endurskoðunar Miklatúns með þátttöku íbúa

31 Jólaþorp á Miklatúni

32 Markaðir á Miklatúni

33 Létt-strætó fyrir öll börn í og úr Suðurhlíðum

34 Göngustígur við sunnanverðan Bústaðaveg frá Suðurhlíðum með tenginu við stíg við Valsheimili

35 Hljóðvist og hljóðvarnir (manir og veggir) við Miklubraut (vestur frá Kringlu og allt að Snorrabraut) og Kringlumýrarbraut – allt í gegn

36 Göngubrú yfir Kringlumýrarbraut gengt Suðurveri

37 Endurgerð Lönguhlíðar nyðri í samræmi við syðri hluta

38 Göngustígur fyrir sunnan MH þvert frá Kringlumýrarbraut að MH (tengist botnlöngum)

39 Endanleg lokun Bólstaðarhlíðar

40 Hverfisstrætó – minni léttvagnar (rafmagn?) með mikilli tíðni og tengingum við miðborg með viðkomu nálægt öllum skólum, Kringlu, Valsheimili, etc.

41 Vandamál af völdum umferðar við 365 – lokun Skaftahlíðar við þrengingu?

42 Aðgerðir til að bæta hreinlæti og almenna umgengni í hverfinu

43 Stórefla hverfishátíðina – hugsa stórt á Miklatúni og slá saman við Jazzhátíð á Kjarvalsstöðum sem hæfist seinni partinn undir tjaldi í garði Kjarvalsstaða

44 Tafarlausar aðgerðir til að hægja á umferð um Miklubraut, Kringlumýrarbraut og öðrum stofn/stoðbrautum í hverfinu til minnkunar á mengun, ásamt stórefldum götuþvotti

45 Málþing í byrjun febrúar um Samgöngumál í Hlíðum í tengslum við “Samgöngublómið 2007-2008” tilheyrir hverfinu þar sem leitað verður svara við hvernig Hlíðarnar verði sameinaðar.