Íbúasamtök 3. hverfis
 

Uppfyllingar í Fossvogi

Kópavogsbær hyggur á miklar uppfyllingar í Fossvogi og fyrirhuguð er 13 ha uppfylling sem nær til Reykjavíkur, þ.e. að miðlínu sveitarfélaganna.

Umhverfis- og samgöngusvið segir að landfyllingin á Kársnesi gæti haft margvíslegar afleiðingar fyrir Reykjavík: áhrif á lífríki og sjávarstrauma, hávaða- og svifryksmengun eykst og ásýnd Skerjafjarðar breytist.  Kársnesið er nánast fyrir miðju Skerjafjarðar og er m.a. bent á, að Umhverfisstofnun hafi það til skoðunar að friðlýsa Skerjafjörð.

Þessi gagnrýni Reykjavíkurborgar kemur fram í frétt á mbl.is þann 23. september 2008.

Samtökin Betri byggð á Kársnesi hafa barist gegn fyrirhugaðri uppbyggingu á Kársnesi en frekar hefur farið hljótt um þá fyrirætlan að fylla upp í Fossvoginn að landamörkum við Reykjavík. Hér að neðan eru hlekkir á helstu gögn vegna þessa máls, sem liggja fyrir núna.

Það er sérstök ástæða til að hvetja alla þá sem unna strandlengjunni í Fossvogi og Skerjafirði að kynna sér þetta mál gaumgæfilega og þau áhrif sem slík uppfylling getur haft á lífríki og lífsgæði í þessum syðri mörkum 3. hverfis.

Þess má einnig geta að í neðangreindri umhverfisskýrslu er í engu reynt að svara hvaða áhrif fyrirhuguð byggð á Kársnesi muni hafa á umferð um Kringlumýrarbraut, Bústaðaveg og Miklubraut en ljóst er að aukin byggð á Kársnesi mun hafa töluverð áhrif á umferð á þessum yfirfylltu stórfljótum og auka þannig enn frekar á það vandamál sem er að völdum mengunar frá umferð í 3. hverfi Reykjavíkur.

Auglýsing um kynningarfund 25. september 2008 - Birt í Fréttablaðinu 23. september 2008

Auglýsing um breytingar á svæðisskipulagi höfuðborgarsvæðisins - PDF skjal - 1,4 Mb

Umhverfisskýrsla um breytingar á Aðalskipulagi Kópavogs - Júlí 2008 - PDF skjal

Athugasemdabréf frá íbúasamtökunum Betri byggð á Kársnesi til Samvinnunefndar um svæðisskipulag höfuðborgarsvæðisins - 4. september 2008 - PDF skjal

Bréf frá íbúasamtökunum Betri byggð á Kársnesi til Samvinnunefndar um svæðisskipulag höfðuborgarsvæðisins vegna auglýsingar - 23. september 2008 - PDF skjal