Íbúasamtök 3. hverfis
 

Hverfisráð Hlíða boðar til Samgönguþings Hlíða 2009 þann 21. október 2009
kl. 17 - 19 á Kjarvalsstöðum

Hlíðahverfi tekur af skarið í Reykjavík með því að vera fyrst hverfa til að samþykkja samgöngustefnu fyrir hverfið. Íbúar í Hlíðum, Holtum og Norðurmýri eru boðaðir til Samgönguþings Hlíða 2009 þar sem mynduð verður samgöngustefna fyrir 3. hverfi Reykjavíkur.

Hugmyndin að baki samgöngustefnunni er að stuðla að minni kostnaði og bættum umhverfisáhrifum vegna ferða íbúa, hvort sem það er vegna ferða innan hverfis eða út fyrir það.

Með samgöngustefnunni er stefnt að:

 • Minni kostnaði við rekstur bifreiða.
 • Umhverfisvænum samgöngumátum og  minni bílaumferð, hljóð- og loftmengun og losun á CO2. 
 • Aukinni hreyfingu og bættri heilsu íbúa. 
 • Þörf fyrir færri bifreiðar á hverja fjölskyldu og því minni ,,bílastæðavanda” og greiðari aðgangi íbúa, vina og vandamanna að bílastæðum í hverfinu.
 • Aukinni samkennd innan hverfis.
 • Aukinni samfélagsábyrgð og jákvæðri ímynd hverfisins.

Dagskrá:

 1. Kynning á Hverfisráði Hlíða
 2. Kynning frá Umhverfis- og samgöngusviði Reykjavíkurborgar
 3. Kynning frá Íbúasamtökum 3. hverfis - Hlíðar, Holt og Norðurmýri
 4. Hópastarf
 5. Niðurstöður

Gert er ráð fyrir svipuðu fyrirkomulagi og reyndist svo vel þegar íbúafundur var um nýtt skipulag á Miklatúni. Þá mættu yfir 100 íbúar á Kjarvalstaði til að leggja á ráðin um framtíðarskipulag garðsins. Nú er tækifæri til að endurtaka leikinn og fjölmenna til að móta fyrst hverfa í Reykjavík samgöngustefnu fyrir heilt hverfi og taka þátt í líflegri stefnumótum í samvinnu við nágranna og aðra íbúa í Hlíðum, Holtum og Norðurmýri.