Íbúasamtök 3. hverfis

Um 30 manns mættu og stöðvuðu umferð á Miklubraut í nokkrar mínútur miðvikudaginn 21. október í aðdraganda samgönguþings:

Forsíða Fréttablaðsins - 22. október 2009

Úrklippa úr Morgunblaðinu 22. október 2009

Hér að neðan er texti sem við sendum inn á flest heimili næst Miklubraut dagana fyrir aðgerðir. Við minnum sérstaklega á að skruna alveg niður til að sjá úrklippur frá aðgerðum íbúa árið 1997!

- - -

Sýndu tillitsemi – Hér býr fólk – Minni hávaða – Betra loft

Íbúar í Hlíðum boða til aðgerða á Miklubraut

miðvikudaginn 21.október kl. 16:30

 

Íbúar í Hlíðum vilja draga andann rólegir í sínu eigin hverfi og hlífa börnunum við mengunaráhrifum mikillar umferðar á Miklubraut.  Íbúasamtök Hlíða og Norðurmýrar boða til friðsamra aðgerða á sjálfri Miklubraut til að vekja fólk til vitundar um skert lífsgæði Hlíðabúa vegna hávaða - og svifryksmengunar.

Miðvikudaginn 21. október kl. 17.00 boðar Hverfisráð Hlíða til Samgönguþings á Kjarvalsstöðum.  Þing þetta er opið öllum íbúum Hlíða sem fyrst hverfa ætlar að móta samgöngustefnu fyrir hverfið.

Íbúasamtök 3. hverfis - Hlíðar, Holt og Norðurmýri fagna þessu framtaki og hafa skipulagt aðgerðir í tilefni af þessu. Íbúar ætla að safnast saman kl. 16.30 beggja vegna Miklubrautar við gangbrautina við Engihlíð á móts við Miklatún, þar sem dreift verður rykgrímum.  Kl. 16:45 munum þeir ganga nokkrum sinnum í rólegheitum yfir Miklubrautina með stóran borða sem meðal annars á stendur:  Sýndu tillitsemi – Hér býr fólk – Minni hávaða – Betra loft.   Borði þessi var notaður í sams konar aðgerðum fyrir 12 árum af íbúum hér í hverfinu og var gefinn íbúasamtökunum fyrir ári síðan.  Áhyggjur íbúa þá og nú eru hinar sömu, enda eykst umferð á Miklubraut ár frá ári og svifryksmengun fer ítrekað yfir heilsufarsmörk í Hlíðum.

Stjórn Íbúasamtaka 3. hverfis býður öllum íbúum Hlíða, ungum, gömlum, fjölskyldum og einstaklingum að taka þátt í þessari friðsamlegu athöfn.  Við viljum vekja okkur sjálf og aðra til vitundar um það að það er hægt hafa mikil áhrif á loftgæði borgarinnar með t.d. að ganga og hjóla meira, aka hægar og hætta notkun nagladekkja. Stjórn samtakanna  krefst einnig svara frá borgaryfirvöldum hvaða úrræði þau hafi til að tryggja það að að mengunin við Miklubraut fari ekki oftar yfir heilsufarsmörk á árinu enda hefur fjöldi skipta nú þegar fyllt leyfilegan kvóta samkvæmt reglugerð. Íbúasamtökin hvetja fólk til að mæta með heyrnarhlífar, hjálma og mótmælaspjöld. Fulltrúar frá íbúasamtökum munu stjórna aðgerðum, dreifa rykgrímum til gangandi fólks og bílstjóra og kalla til fjölmiðla.

Stöndum, saman, stöðvum stórfljót bíla á Miklubraut skamma stund
– og drögum andann djúpt í Hlíðum.

Nokkrar staðreyndir:

  • Þann 27. september 2009 hafði svifryk í Hlíðum farið 12 sinnum yfir heilsufarsmörk af þeim 12 sem leyfilegt er samkvæmt reglugerð 251/2002. Hvað á að gera til að koma í veg fyrir 13. skiptið?
  • Meirihluti íbúa í Hlíðum býr innan hættulegasta 200 m áhrifasvæðis af völdum NO2 og svifryks.
  •  5 af 7 leiksskólum og allir barnaskólar hverfisins eru einnig á þessu mesta áhrifasvæði umferðarmengunar
  • Svifryksmengun hefur óæskileg áhrif meðal annars á lungnaþroska barna og astma
  • Talið er að tengsl séu milli rykmengunar og lungnakrabbameins og hjarta- og æðasjúkdóma
  • Fjöldi gagna um heilsuspillandi áhrif svifryks og baráttu íbúasamtaka III. hverfis fyrir bættum loftgæðum er að finna á heimasíðu samtakanna www.hlidar.com.

Eftir þetta hvetjum við íbúa til að fjölmenna á Samgönguþing Hlíða á Kjarvalsstöðum sem hefst kl. 17 og stendur til kl. 19!

 

Hér að neðan eur úrklippur úr Morgunblaðinu sú fyrri frá 24. maí 1997 og hin frá 18. janúar 1997. Með því að ýta á myndirnar, opnast þær í nýjum glugga í PDF til að skoða nánar. Myndirnar eru teknar af vefnum www.timarit.is.