Íbúasamtök 3. hverfis
 

Samgöngustefna 3. hverfis - Hlíða, Holta og Norðurmýrar.

Samgöngustefna 3. hverfis, Hlíða, Holta og Norðurmýrar er sett til þess að stuðla að minni kostnaði og bættum umhverfisáhrifum vegna ferða íbúa, hvort sem er vegna ferða inn hverfis eða út fyrir það.

Með samgöngustefnu vilja íbúar sýna samfélagslega ábyrgð í verki og stuðla að vistvænum og heilnæmum samgönguháttum fullorðinna jafnt sem barna.

Í samræmi við þennan ávinning og vegna aukins umferðarþunga í Hlíðum, Holtum og Norðurmýri, aukins svifryks og átaks Reykjavíkurborgar til að minnka útblástur gróðurhúsalofttegunda sameinast íbúar 3. hverfis um að fullorðnir jafnt sem börn gangi, hjóli og noti almenningssamgöngur og verði þannig fyrirmynd annara hverfa borgarinnar.

Íbúar 3. hverfis vilja þannig draga úr ónauðsynlegum ferðum og nota til þess upplýsingatækni, aukna samnýtingu ferða og almenningssamgöngur þegar það á við. Jafnframt leitast þeir við að ganga eða hjóla allar styttri vegalengdir.

Með samgöngustefnunni er stefnt að:

  • Aukinni samkennd innan hverfis og jákvæðri ímynd hverfisins.
  • Aukinni samfélagsábyrgð – breytt gildismat
  • Umhverfisvænum samgöngumátum og  minni bílaumferð, hljóð- og loftmengun og losun á CO2.
  • Aukinni hreyfingu og bættri heilsu íbúa.
  • Þörf fyrir færri bifreiðar á hverja fjölskyldu og því minni ,,bílastæðavanda” og greiðari aðgangi íbúa, vina og vandamanna að bílastæðum í hverfinu.

Íbúar 3. hverfis skora á íbúa annarra hverfa borgarinnar að sameinast einnig um samgöngustefnu og skora jafnframt á borgaryfirvöld að miða akstur og leiðakerfi almenningsvagna við það að sem flest borgarhverfi geti tekið upp samgöngustefnu í þessum anda.

Jafnframt skora íbúar 3. hverfis Reykjavíkur á borgaryfirvöld að gera hjólreiðar að raunverulegum samgönguvalkosti.

- - -

Samgöngustefna þessi var unnin á Samgönguþingi Hlíða sem boðað var til af Hverfisráði Hlíða og haldið að Kjarvalsstöðum þann 21. október 2009 og samþykkt einróma á aðalfundi Íbúasamtaka 3. hverfis þann 29. október 2009.